Amtmaðurinn á Einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason er ævisaga Gríms Jónssonar. Hún er í senn saga Íslands á síðustu árum danskrar einvaldsstjórnar og einkar fróðleg frásögn af margbrotnum persónuleika; manni sem talinn var hrokafullur en valdi sér legstað í fátækrareit. „Danski Grímur dáinn er, húrra, húrra!“ var ort við andlát hans en Ísland átti þó hug hans allan og þangað hvarf hann, sjúkur á sál og líkama, þegar kreppti að í einkalífinu.
Grímur Jónsson var einn æðsti valdsmaður Íslands á fyrri hluta 19. aldar, tvívegis amtmaður norðan og austan, sat á Möðruvöllum í Hörgárdal og kom víða við í íslensku þjóðlífi. Hann hafði mikinn áhuga á hvers kyns framfaramálum en fáfræði og íhaldssemi var eitur í beinum hans. Grímur var þó jafnframt konunghollur embættismaður sem blöskraði sjálfræðishneigð alþýðu og þegar vindar þjóðfrelsis bárust til Íslands frá meginlandi Evrópu hlaut að skerast í odda: Skagfirskir bændur riðu norður að Möðruvöllum til að krefjast afsagnar hans. Tveimur vikum síðar var hann allur.
Kristmundur Bjarnason fræðimaður á Sjávarborg rekur hér ævi Gríms og störf, segir frá ætt og uppruna, skólagöngu, hermennskuferli, embættisverkum og átakamálum en einnig hjónabandi Gríms, fjölskyldu, skuldabasli og erfiðleikum. Hann leitar víða fanga í heimildum og styðst meðal annars við bréf og dagbækur til að rýna ofan í sálakirnur manna.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun