Hér eru rakin uppvaxtar- og ævisaga drengs úr Mýrdalnum. Framtíðardraumar hans voru að verða bóndi, helst með kennslu í hjáverkum. Raunin varð önnur því hann var hvattur til náms sem fleytti honum yfir í læknisfræði og hann varð einn færasti skurðlæknir landsins á sinni tíð. Eftir nám og störf í Bandaríkjunum var hann svo lánsamur að hreppa óskastöðu á Landakotsspítala, þar sem hann átti farsælan feril í áratugi.
Eins og lífið býður uppá unnust stórir sigrar en oft gaf á bátinn inn á milli – því lífið er ekki alltaf dans á rósum. Sigurgeir upplifði stórstígar framfarir í sínu fagi og var fyrstur hérlendra lækna að tileinka sér ýmsar þeirra. Hann eignaðist góða fjölskyldu en missti konu sína á besta aldri og varð fyrir afdrifaríku slysi þegar leið að starfslokum. Einnig tvinnast inn samband frá unga aldri sem varð honum til gæfu síðar á ævinni.
Sigurgeir Kjartansson er af þeirri kynslóð sem lifað hefur hvað mestar samfélagsbreytingar og lífshlaup hans ber því glöggt vitni. Hann segir sögu sína af opinskáu hispursleysi og kímnin er aldrei fjarri.