Dexter Morgan er einn færasti blóðslettufræðingur lögreglunnar í Miami. Hann er vinnusamur og traustur og kann sitt fag enda nýtir hann sér það á ógleymanlegan hátt og út í ystu æsar. Dexter hefur í rauninni flest það til að bera sem prýða má einn mann; hann er myndarlegur, ástríkur, fyndinn, hjálpsamur, barnslegur og hreint ótrúlega snjall. En það lúra í honum hin myrkustu öfl og þau knýja hann hvað eftir annað til hrottafenginna og miskunnarlausra morða.
Sjálfur segist Dexter eiga sér nokkrar málsbætur; hann drepur þá sem eiga það skilið, hann drepur bara vonda menn, hann hreinsar burtu óþverrann, hann slítur illskuna upp með rótum; og kannski er það einmitt þess vegna sem lesandinn á sér þá lævísu ósk að ekki komist upp um hinn slungna en jafnframt elskulega raðmorðingja.
Jeff Lindsay hefur á ógleymanlegan hátt tekist að koma hinu margbrotna eðli raðmorðingjans til skila. En um leið gerir hann lesandann ábyrgan þátttakanda í spennandi og magnþrunginni frásögn. Dexter í dimmum draumi er bók sem svíkur engan sem ann krassandi krimma af bestu og ferskustu gerð.