Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Í Stóru bókinni um sous vide afhjúpar verðlaunakokkurinn Viktor Örn Andrésson leyndarmál matreiðslumeistara. Í áraraðir hafa bestu veitingahús heims eldað með sous vide af einföldum ástæðum; matreiðslan er auðveld en skilar engu að síður fullkomlega elduðu hráefni og bragðið nýtur sín til fulls.

Í bókinni eru fjölbreyttar uppskriftir við allra hæfi, allt frá safaríkum steikum til crème brûlée á heimsmælikvarða og fullkomna fiskinum að gómsætu grænmeti og ávöxtum. Stóra bókin um sous vide er fyrir þá sem brenna af áhuga fyrir góðum mat. Nú geta allir orðið meistarakokkar í eldhúsinu heima með lítilli fyrirhöfn.

Viktor Örn Andrésson er margverðlaunaður matreiðslumaður sem hefur eldað með sous vide til fjölda ára. Hann hefur starfað á Michelin-veitingastöðum og verið matreiðslumaður Íslands árið 2013 og Norðurlanda árið 2014. Árið 2017 vann hann til bronsverðlauna í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d’Or.

Stóra bókin um sous vide er sannkallað grundvallarrit og hentar bæði byrjendum sem lengra komnum. Í henni má finna veglegan inngangskafla með góðum ráðum og upplýsingar um helstu tæki og tól.

Glæsilegar ljósmyndir eftir Karl Petersson prýða bókina sem inniheldur meira en 150 ljúffengar og fjölbreyttar uppskriftir eftir einn fremsta matreiðslumann Íslands.