„Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni,“ segir séra Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli. Halldór Laxness lifði í skáldskap í margvíslegum skilningi – og lifir enn. Hann fæddist 1902 og lést 1998; ævi hans spannaði því nánast alla 20. öldina og höfundarferillinn var samofinn þjóðarsögunni í áratugi, enda var hann aðeins sautján ára þegar fyrsta skáldsaga hans kom út og var sístarfandi fram á níræðisaldur. Eftir hann liggja tugir bóka af ýmsu tagi: skáldsögur, smásögur, leikrit, kvæði og endurminningar, auk ferðasagna, ritgerða- og greinasafna. Hann fékk nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955 og víst er að skrif hans mörkuðu djúp spor í þjóðarsálina; má jafnvel segja að skáldverk hans séu órjúfanlegur þáttur í sjálfsvitund Íslendinga nútímans.
Perlur í skáldskap Laxness kom út 1998 og þessi bók er stytt útgáfa hennar. Hér má finna yfir 700 tilvitnanir og sem fyrr er leitast við að hafa tilvitnanir fjölbreyttar og úr sem flestum verkum skáldsins, og þeim er deilt í á fimmta tug efnisflokka.