Noam Chomsky er án efa nafnkunnasti málvísindamaður samtímans og nýtur sérstöðu hvað varðar hin víðtæku áhrif sem kenningar hans hafa haft á ýmsar greinar mannlegra fræða, til að mynda sálfræði og heimspeki. Hann er raunar ekki síður þekktur fyrir þátttöku sína í bandarískri stjórnmálaumræðu, sér í lagi ötula gagnrýni á utanríkisstefnu stjórnvalda þar í landi.
Tímamótaframlag hans til málvísindanna felst í svokallaðri ummyndunarmálfræði, sem greinir á milli tveggja birtingarforma setninga, annars vegar yfirborðsgerðar og hins vegar djúpgerðar þeirra, sem lætur í ljós röklega byggingu viðkomandi setningar og merkingarfræðileg tengsl hluta hennar.
Kenningar Chomskys hafa þróast undir áhrifum nútímarökfræði og útfærsla hans er á köflum nokkuð tæknileg. Að sama skapi hefur hann haldið áfram að þróa og móta hugmyndir sínar á því tæplega 50 ára tímabili síðan verk hans vöktu fyrst athygli. Mál og mannshugur kynnir lesandanum ýmis meginatriði í kenningum þessa áhrifamikla höfundar í þremur köflum, sem fjalla um það hvernig rannsóknir á tungumálinu hafa varpað ljósi á þá ráðgátu sem mannshugurinn er, fyrr á tímum og á okkar dögum – og hver þessi áhrif kunni að verða í framtíðinni. Bókina byggir Chomsky á þremur fyrirlestrum um efnið sem hann hélt við Kaliforníuháskóla í Berkeley í janúar 1967.
Hugmyndir Chomskys hafa alla tíð verið umdeildar, ekki síst trú hans á vissa tegund áskapaðra hugmynda, en hann telur getu barna til að tileinka sér hvaða tungumál sem er á ótrúlega skömmum tíma hljóta að orsakast af því að frá fæðingu búi hugur þeirra yfir algildum málfræðireglum. Þessar reglur séu sameiginlegar grundvallarreglur allra tungumála. Enn fremur lítur hann svo á að markmið málvísinda sé að skýra það að náttúrulegt tungumál feli í sér óendanlega marga möguleika til myndunar nýrra setninga. Aðferð þeirra hljóti því að felast í því að setja fram tilgátur um reglur sem lýsi öllum málfræðilegum setningum og samkvæmt hverjum hægt sé að skapa óendanlega margar setningar. Með þessu víkur hann frá formgerðarstefnunni sem hafði verið ríkjandi allt frá upphafi nútímamálvísinda.
Auk þess að gagnrýna formgerðarstefnuna beinir Chomsky með kenningunni um algilda málfræði hvössum spjótum að atferliskenningum um sálarlífið, og átti raunar ríkan þátt í því að hún vék fyrir öðrum skýringum í sálfræði og hugfræði.
Í inngangi Halldórs Halldórssonar er framlag Chomskys sett í sögulegt samhengi við strauma í málvísindum á 20. öld til að varpa ljósi á vægi þess og undirstrika aðalatriði kenningar hans.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun