Jötnar hundvísir er í senn tímamótaverk í alþjóðlegum rannsóknum á norrænni goðafræði og áhugavekjandi íslenskt fræðirit, lifandi og alþýðlega fram sett. Með rannsókn sinni sýnir höfundur fram á að jötnar goðheimsins eru mun flóknari en talið hefur verið; þeir tengjast sköpun heimsins og búa yfir þekkingu um upphaf hans og örlög.
Segja má að í flestöllum yfirlitsritum um norræna goðafræði séu jötnar sýndir sem óvinir goðanna, hálfgerðar ófreskjur sem hafa það eitt að markmiði að tortíma veröld goða og manna. Þannig er ímynd þeirra í Eddu Snorra Sturlusonar, og ekki að undra að í vitund fólks hafi hún á síðari tímum runnið saman við bergrisana og tröllin í þjóðsögunum.
Myndin sem Ingunn Ásdísardóttir bregður hér upp í könnun sinni á elstu heimildum um jötna og jötnameyjar er önnur og miklu flóknari. Jötnarnir tengjast sköpun heimsins, þeir búa yfir þekkingu á rúnagaldri og vitneskju um upphaf hans og örlög. Jötnameyjar eru undurfríðar og ýmsum sérstökum eiginleikum búnar. Samskipti goða og jötna eru tíð og margháttuð, og það eru fyrst og fremst æsirnir sem beita brögðum í þeim viðskiptum. Þeir sækjast eftir fróðleik úr fórum jötna og vilja ólmir komast yfir dætur þeirra.
Margs konar fornminjar, myndir á myndsteinum, skartgripir og munir af ýmsu tagi renna stoðum undir niðurstöður höfundar, og jafnframt kannar hún í því samhengi fyrirferð jötna í kenningum dróttkvæðaskálda. Þegar djúpt er skoðað bendir margt til að jötnar hafi verið einhvers konar átrúnaðargoð, hugsanlega persónugervingar jarðar og náttúru á forsögulegum tíma, áður en ásatrúin varð allsráðandi í átrúnaði fólks.
Jötnar hundvísir, norrænar goðsagnir í nýju ljósi er í senn tímamótaverk í alþjóðlegum rannsóknum á norrænni goðafræði og áhugavekjandi íslenskt fræðirit, lifandi og alþýðlega fram sett. Fyrri bók Ingunnar í þessari ritröð, Frigg og Freyja, kvenleg goðmögn í heiðnum sið, kom út 2007.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun