Fjórir ungir drengir róa í leyfisleysi út á stórt stöðuvatn. Einn þeirra fellur útbyrðis og er nærri því drukknaður. Ofan í vatninu birtist nakin stelpa, bjarthærð og grönn, og réttir honum svartan hlut. Sjálfur er drengurinn með myrkur í maganum, myrkur sem þrífst á þögn og ótta og mun einn daginn toga hann aftur til sín.
Tíu árum síðar gerast dularfullir atburðir: Tvö ungmenni hverfa sama dag, piltur og stúlka. Pilturinn finnst nærri dauða en lífi en ekkert spyrst til stúlkunnar. Hann ákveður að leita hennar en hversdagsleikinn breytist í botnlaust hyldýpi og leitin verður fljótt að martröð sem engan enda ætlar að taka …
Lesendur hafa tekið mögnuðum sögum rithöfundarins Stefáns Mána tveim höndum og hafa bækur á borð við Svartur á leik, Skipið og Ódáðahraun vakið eftirtekt fyrir bæði óbærilega spennu og mikinn kraft. Í Hyldýpi er stílfimi höfundar og innsæi á sínum stað og sögusviðið ískyggilegt sem fyrr.