Hvað verður fegra fundið er úrval þess fjölbreytta kveðskapar sem liggur eftir sr. Hallgrím Pétursson (1614–1674), helsta skáld 17. aldar á Íslandi. Um er að ræða tvímálaútgáfu þar sem allir textarnir eru bæði á íslensku og í enskri þýðingu. Hallgrímur Pétursson er þekktastur fyrir Passíusálmana en hann orti kvæði og sálma af öllu tagi. Bókinni er ætlað að endurspegla það og má hér til dæmis finna heilræði, bænavers, ferðaljóð, ádeilu og náttúrulýsingar, auk þekktra erinda úr Passíusálmunum. Þegar Hallgrímur hafði lokið við Passíusálmana sendi hann þá fjórum konum sem tengdar voru háttsettum embættismönnum og óskaði þess að þær kæmu sálmunum á framfæri. Með þetta í huga voru fjórar konur fengnar til að velja sálma og kvæði í þessa bók. Það eru þær sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og Margrét Eggertsdóttir sem jafnframt er ritstjóri. Reynt var að hafa úrvalið sem fjölbreyttast og velja yfirleitt stök erindi og vers fremur en heil kvæði. Passíusálmarnir (ýmist í heild eða hluti þeirra) hafa fimm sinnum verið þýddir á ensku og var hér farin sú leið að velja milli þessara þýðinga í hverju tilfelli fyrir sig. Annan kveðskap Hallgríms hefur Andrew Wawn, prófessor emeritus við háskólann í Leeds, þýtt með fáeinum undantekningum.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun