Skáldsagan Hættuleg sambönd fjallar um Merteuil markgreifynju og Valmont vísigreifa, lífsreynt, kaldrifjað aðalsfólk sem finnst vanta krydd í heldur bragðdaufa tilveru. Þau ákveða að draga fólk á tálar ýmist sér til skemmtunar eða í hefndarskyni og skrifast á um árangurinn.
Peðin í þessu magnaða manntafli þeirra skötuhjúa skrifast einnig á sín á milli og við þau. Sumar persónurnar eru einlægar en aðrar halda sig við hálfsannleika ef þær ljúga hreinlega ekki til að ná markmiðum sínum, stundum með óvæntum og grátbroslegum afleiðingum.
Þannig dregur höfundur upp áhrifaríka mynd af þeim dásamlegu og jafnvel hættulegu tilfinningum og hvötum sem knýja fólk áfram í lífinu. Ástarþrá, drottnunargirni, hamingjuleit, valdafíkn, hefndarþorsti og sjálfhverfa eru meðal þeirra grundvallarþátta í fari fólks sem lítið sem ekkert hafa breyst í gegnum tíðina.
Þetta fangar Laclos meistaralega í Hættulegum samböndum. Allt frá því þessi frægasta bréfaskáldsaga heimsbókmenntasögunnar kom fyrst út í París árið 1782 hefur hún heillað og hneykslað lesendur um allan heim. Hún er nú talin eitt af höfuðverkum heimsbókmenntanna og hefur margoft verið kvikmynduð og sviðsett.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun