Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Guðrún Lárusdóttir (1880-1938) var kjörin til forystu í samfélaginu. Hún var bæjarfulltrúi, alþingismaður, fátækrafulltrúi, rithöfundur, félagsmálakona, eiginkona og tíu barna móðir. Einn samferðamanna hennar sagði um hana að hún væri óvenjuleg afburðakona.

Hún flutti með foreldrum sínum frá Reyðarfirði til Reykjavíkur 1899 og bjó þar síðan. Guðrún bjó lengst af í Ási, Sólvallagötu 23, og voru hún og Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, maður hennar, gjarnan kennd við húsið.

Guðrún sat í bæjarstjórn Reykjavíkur árin 1912-1918 og var kosin á Alþingi 1930 og starfaði þar til dánardags. Tvisvar gegndi hún starfi fátækrafulltrúa, fyrst 1918-1921 og síðan frá 1930. Við fráfall Guðrúnar varð Ólafi Thors að orði að nú hefðu smælingjarnir misst sinn einlægasta málsvara.

Guðrún tók þátt í starfi og/eða stofnaði ýmis félög. Má þar nefna, Trúboðsfélag kvenna og Kvenfélag Fríkirkjunnar í Reykjavík sem hún stofnaði með móður sinni. Hún var formaður KFUK í Reykjavík. Einnig starfaði hún með bindindisfélögunum Hlín og Ársól. Hún sat í stjórn Hvítabandsins, Mæðrastyrksnefndar, Barnavinafélagsins Sumargjafar, Slysavarnarfélags kvenna og var formaður Húsmæðrafélagsins í Reykjavík. Einnig var hún virk í Sjálfstæðiskvennafélaginu Hvöt og Verði. Hún tók einnig virkan þátt í kvennadeginum 19. júní – Landspítaladeginum og talaði gjarnan á samkomum tengdum þeim degi.

Ritstörf voru Guðrúnu ástríða alla ævi, allt frá því hún 15 ára hóf útgáfu Mínervu, handskrifaðs blaðs. Hún ritaði skáldsögur, fjölda smásagna og greina sem birtust í blöðum auk þess sem hún þýddi efni til útgáfu. Fyrsta stóra sagan hennar Á heimleið var þýdd á dönsku og þýsku og síðar gerð leikgerð eftir sögunni.