Höfundur Halldór Laxness
Vefarinn mikli frá Kasmír er tímamótaverk sem kom út árið 1927 þegar Halldór Laxness var 25 ára að aldri og vakti gríðarlega athygli og deilur. Sumum þótti sagan of bersögul og óþjóðleg en aðrir fögnuðu henni sem tákni nýrrar tíðar og bjartrar. Næstum jafnfrægur bókinni sjálfri er ritdómur Kristjáns Albertssonar: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefur eignast nýtt stórskáld – það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði.“ En athyglin beindist þó ekki síður að höfundinum sjálfum. Hann var hneykslunarhella margra, þá eins og oft síðan, líferni hans þótti sérstakt; klausturvist, kaþólska, heimshornaflakk og bóhemlíf.
Vefarinn mikli frá Kasmír fjallar um Stein Elliða, ungan gáfumann sem leitar lífsfyllingar og haldbærra sanninda í heimi fullum efasemda. Hugmyndastraumar og upplausnarandi millistríðsáranna koma hér kannski betur fram en í nokkru öðru íslensku ritverki. Halldór sagði í blaðaviðtali um það leyti sem bókin kom út að í sögunni tæki hann til meðferðar allflest hin dýpri áhugaefni sem hugsanlegt væri að valdið gætu ungum manni þessara tíma svefnlausum nóttum.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun