Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Sveinn Einarsson

Jóhann Sigurjónsson er ótvírætt eitt af höfuðskáldum Íslendinga á 20. öld. Í ljóðum hans kveður við nýjan tón, gjörólíkan þeim sem setur mestan svip á stórbrotinn kveðskap næstu kynslóðar á undan. Hann var frumkvöðull módernismans í íslenskri ljóðlist og hefur samið ýmis fegurstu ljóð sem Íslendingar eiga. Jafnframt var hann fyrsti Íslendingurinn sem sló eftirminnilega í gegn sem leikskáld bæði á Íslandi og á erlendri grundu.

Í þessu tímamótaverki bregður Sveinn Einarsson birtu á eiginleika Jóhanns bæði sem ljóðskálds og leikritahöfundar. Hann greinir rækilega hvernig áhrif táknsæisstefnunnar (symbolismans) birtast hjá Jóhanni og skýrir hvers vegna leikritum Jóhanns farnaðist misvel.

Í bókinni birtist okkur Jóhann Sigurjónsson sem einstakt skáld en í skýru samhengi við tíðaranda og menningu síns tíma.