Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Með útgáfu þessarar bókar kemur í fyrsta sinn út á íslensku heildstæður hluti af verkum Tómasar af Aquino, sá hluti stórvirkisins Summa Theologiæ sem snýr að eðli laga. Höfundurinn var merkasti skólaspekingur og guðfræðingur miðalda, hann tilheyrði reglu Dóminíkana og ritaði hin umfangsmiklu og gríðarlega áhrifamiklu verk sín á síðari hluta 13. aldar. Felast áhrif Tómasar á kristna trú, heimspeki og samfélag fyrst og fremst í því að hann tókst á hendur að samþætta kennisetningar kristninnar og forngríska heimspeki, sér í lagi kenningar Aristótelesar. Hann var þeirrar skoðunar að ýmis atriði trúarinnar mætti styðja skynsamlegum rökum og ætlaði sér með Summa Theologiæ að setja fram á nýjan og skýrari hátt byggingu gervallrar guðfræðinnar. Verk hans bera að miklu leyti uppi trúfræði hinnar rómversk-kaþólsku kirkju.

Um lög er í senn lögspekirit, siðfræði og guðfræði og er kafli úr öðrum hluta Summa Theologiæ en hefð er fyrir því að gefa hann út sem sjálfstætt rit. Hér er fengist við siðferðislíf mannsins og takmark tilveru hans og byggir Tómas vitaskuld á siðfræði Aristótelesar. Höfuðspurningin sem höfundur leitast við að svara í ritinu lýtur að eðli laga, áhrifum þeirra og tegundum, sem Tómas greinir í eðlislög eða náttúrulög, eilíf lög, lög manna og guðslög.
Lög eru, í huga Tómasar, fjarri því að vera reglur sem valdhafar þvinga uppá fólk í því skyni að halda því í skefjum, heldur „ráðstöfun skynseminnar sem skipar til almannaheillar“. Hin svokölluðu eilífu lög eru fólgin í skipan heimsins, stjórn hans samkvæmt guðlegri forsjá, en eðlislögin birtast í skynsemi mannsins og siðferðisvitund. Þannig birtast hin eilífu lög í skynsemisverum. Lög mannanna eru aftur á móti nánari útfærsla á eðlislögum en Guðslögin þau sem Guð hefur birt mönnum opinberlega í Biblíunni og með boðorðum sínum.

Sú kenning að lögin séu óháð mannlegu valdi og mönnum ekki í sjálfsvald sett – það sem Tómas kallar eðlislög en nefnast oftar náttúruréttur – hefur komið fram í ýmsum myndum fyrir tíma Tómasar og fram á okkar daga, og jafnan verið umdeild. Hér er hún sett fram á hvað skýrastan og kunnastan hátt með þeim röksemdum að réttlát lagasetning löggjafa bindi samviskuna, með því að þau hljóti kraft sinn frá hinum eilífu lögum. Þeim lögum sem séu skynsamleg, í samræmi við þá skipan sem birtist í eðli mannsins, beri að hlýða en ranglátum lögum, sem löggjafinn setur í öðru skyni, ekki sökum þess eins að þau séu sett af valdhafa með formlega réttum hætti.

Um lög kemur út með fróðlegum inngangi Garðars Gíslasonar þar sem ritið er sett í samhengi við lífshlaup og samtíma heilags Tómasar og helstu atriði verksins eru skýrð. Gagnlegir viðaukar fylgja í bókarlok.