Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Tími töframanna er grípandi lýsing á einum mesta umbrotatíma í evrópskri menningarsögu. Í bókinni, sem er magnaður spegill óróans og sköpunargleðinnar sem ríkti í Weimar-lýðveldinu á þriðja áratug síðustu aldar, rekur höfundur tilraunir fjögurra hugsuða til að átta sig á stöðu mannsins í heimi sem er á hverfanda hveli. Hildarleikur heimsstyrjaldarinnar fyrri er að baki og ný veröld vísindalegra framfara í burðarliðnum.

Í bókinni kynnumst við ekki aðeins hugsun „töframannanna“ fjögurra, Walters Benjamin, Ernsts Cassirer, Martins Heidegger og Ludwigs Wittgenstein, heldur fáum við jafnframt innsýn í það hvernig ástir og ástríður fléttast saman við heimspeki þeirra. Lesandinn er leiddur inn í töfraveröld hugsunar, þar sem gætir hugljómunar og ógnvekjandi drunga á víxl.

Tími töframanna er einstæð lýsing á því hvernig fjórir um margt mjög ólíkir hugsuðir freista þess að skýra af hvaða rótum menning okkar, tungumál og skilningur á heiminum eru sprottin, og hvernig við getum hagað tilvist okkar á óvissutímum sem eiga um margt skylt við það umrót sem ríkir við upphaf 21. aldar.

Bókin vakti mikla hrifningu þegar hún kom út og sat lengi ofarlega á metsölulistum í Þýskalandi, auk þess sem hún hefur verið þýdd á rúmlega 20 tungumál.

Um höfundinn:

Wolfram Eilenberger fæddist árið 1972 í borginni Freiburg í Svartaskógi. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá háskólanum í Zürich árið 2008. Bók hans Finnen von Sinnen kom út árið 2010. Í henni fjallar Eilenberger, sem er kvæntur finnskri konu, á kankvísan hátt um kynni sín af mannlífinu í Finnlandi. Bókin varð metsölubók bæði í Þýskalandi og Finnlandi. Eilenberger hefur sent frá sér nokkrar bækur um heimspeki og var um árabil ritstjóri heimspekitímaritsins Philosophie Maga­zin. Hann er að auki mikill knattspyrnuáhugamaður og hefur getið sér gott orð fyrir greinaskrif um íþróttir.

Um þýðandann:

Arthúr Björgvin Bollason lauk magistersprófi í heimspeki frá háskólanum í Hannover í Þýskalandi. Arthúr hefur þýtt fjölmörg skáld- og fræðirit úr þýsku, auk þess sem hann hefur sent frá sér frumsamdar bækur um margvísleg efni, bæði á íslensku og þýsku. Árið 1999 kom út eftir hann ljóðabókin Okkar á milli.

Aðrar vörur frá þessari verslun

Aðrar vörur frá þessari verslun