Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Að þessu sinni er glæpaslagsíða á heftinu þar sem Hið íslenska glæpafélag fagnar 25 ára afmæli í ár með margvíslegum hætti, meðal annars með sögum og greinum í þessu hausthefti TMM. Hér birtast fimm nýjar glæpasmásögur eftir þau Viktor Arnar Ingólfsson, Önnu Margréti Sigurðardóttur, Ragnar Jónasson, Ragnheiði Gestsdóttur og Ævar Örn Jósepsson en auk þess rita þau Ævar Örn, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir og Elva Rún Pétursdóttir greinar um íslenska glæpasagnahöfunda og fjölbreytt umfjöllunarefni þeirra. Jóhannes Ólafsson tekur svo viðtal við höfund sem hefur fylgt upprisu íslensku glæpasögunnar nánast frá upphafi, Stefán Mána.

Fyrir utan glæpafárið birtum við einnig áhugaverða grein eftir Guðrúnu Steinþórsdóttir um smásögu eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur, við bjóðum upp á smásögu eftir palestínsk-íslenska skáldið og rithöfundinn Mazen Maarouf í þýðingu Ugga Jónssonar, ljóð eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sölva Halldórsson, G. Pétur Matthíasson og Friðrik Gíslason. Einnig birtast hér nokkur þýdd ljóð en Stefán Sigurðarson þýðir ljóð eftir norsku skáldin Astrid Hjertenæs Andersen og Steinar Opstad og Brynja Hjálmsdóttir þýðir ljóð eftir danska skáldið Ursulu Andkjær Olsen, sem er væntanleg hingað til landsins á vegum Bókmenntaborgarinnar í október. Silja Aðalsteinsdóttir færir okkur svo skemmtilega yfirferð yfir síðasta leikhúsvetur.

Friðgeir Einarsson birtir sína þriðju hugvekju og umsagnir um bækur eru á sínum stað og það eru þau Jórunn Sigurðardóttir, Björn Teitsson, Erla Elíasdóttir Völudóttir og Ingunn Ásdísardóttir sem rýna í nýlegar bækur fyrir okkur.