William Styron var fæddur í Virginíufylki í Bandaríkjunum árið 1925, en saga Suðurríkjanna átti eftir að lita rithöfundarferil hans mjög. Skammt frá fæðingarstað hans var aftökustaður þrælsins og baráttumannsins Nat Turner, en Styron skrifaði vinsæla bók byggða á ævi hans. William Styron átti erfitt framan af ævi, faðir hans þjáðist af þunglyndi og móðir hans lést eftir margra ára þjáningarfulla baráttu við krabbamein þegar William var aðeins fjórtán ára. Hann hvarf frá námi í háskóla til að leggja bandaríska hernum lið í seinni heimsstyrjöldinni, en japanski herinn gafst upp áður en hann náði að halda frá Bandaríkjunum til Kyrrahafsins. Herinn kvaddi hann síðar til þjónustu í Kóreustríðinu en þá komst Styron undan herþjónustu sökum augnvandamála.
Styron helgaði líf sitt ritstörfum og átti mikilli velgengni að fagna á því sviði þótt hann væri stundum umdeildur meðal samtímamanna sinna. Bók hans Játningar Nats Turner, sem kom út í ólgu sjöunda áratugarins þegar barátta svartra Bandaríkjamanna stóð sem hæst, vakti hatrömm viðbrögð. Hann var gagnrýndur harðlega fyrir lýsingu sína á söguhetjunni sem mörgum fannst niðrandi í garð blökkumanna. Ein frægasta bók hans, Val Soffíu, fór sigurför um Bandaríkin og Evrópu, en það fór fyrir brjóstið á mörgum að fórnarlamb Helfararinnar í sögunni skyldi ekki vera gyðingur heldur kristin kona með aríska andlitsdrætti.
Þrátt fyrir mikla velgengni þjáðist Styron af djúpu þunglyndi. Sýnilegt myrkur fjallar um orsakir og afleiðingar þunglyndis og var gefin út árið 1990, þegar Styron var kominn á sjötugsaldur. Bókin var upphaflega tímaritsgrein og lýsir tímabili í lífi Styrons þar sem hann missir tök á þunglyndi sínu og sekkur niður í dýpstu myrkur. Bókin hefst á lýsingu á því þegar Styron var boðið til Parísar í hóf honum til heiðurs. Ferðin markar hraða niðurleið í þunglyndið og Styron þjáist ómælt næstu mánuði í vitfirringu sinni sem leiðir af sér spítalavist, lyfjaneyslu, vonleysi og sjálfsvígshugsanir. Styron fjallar á yfirvegaðan og hlutlægan hátt um þetta tímabil ævi sinnar. Hann nýtir ritformið sem miðil hugleiðinga um þunglyndið sjálft og leitast við að tengja eigið líf og líðan við reynslu annarra rithöfunda, og ræðir þar meðal annars um Primo Levi, Virginiu Woolf og Albert Camus sem þjáðust af sama sjúkdómi. En þetta verk Styrons er einnig óður til lífsins og hann sýnir hér fram á að þrátt fyrir harða og stundum vonlitla baráttu er þunglyndi sjúkdómur sem mannsandinn getur sigrað.
Uggi Jónsson þýðir bókina listilega úr frummálinu, en Einar Már Guðmundsson ritar inngang um ævi og störf skáldsins.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun