Skáld er eg ei, en huldukonan kallar … Á þessum hógværu orðum hóf skáld sem við höfum síðan talið skáld skálda metnaðarfyllsta kvæði sitt. Sumir menn virðast á einhvern hátt fæddir með þessum ósköpum, geta ekki orðið annað en skáld, og bókmenntasagan geymir líka mörg dæmi um skáld sem endurspegla skáldskapinn með allri framkomu sinni. List þeirra og persónuleiki verða eitt og hið sama. Þá er enginn klofningur á milli manns og skálds heldur fullkomin eining.
Slíkur maður var Snorri Hjartarson. Öll hans framkoma og öll hans list vottaði um óvenju hreinlyndan og heilsteyptan mann, en jafnframt var ljóst að hann bar ekki sín hjartansmál utan á sér. Þau tjáði hann í ljóðum sínum. Og það duldist engum sem kynntist Snorra að hann og ljóð hans urðu ekki að skilin, ljóðin voru órjúfanlegur hluti af persónu hans. Sérhver ljóðelskur lesandi getur þess vegna ímyndað sér hver maður Snorri var.
Þetta er heildarútgáfa á ljóðum Snorra Hjartarsonar. Bækur hans fjórar eru hér prentaðar í samræmi við síðustu gerðir þeirra. Á eftir ljóðabókunum fjórum eru prentuð 26 þeirra kvæða sem Snorri skildi eftir sig þegar hann lést. Páll Valsson annaðist útgáfuna.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun