Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Halldór Friðrik Þorsteinsson

Flest látum við okkur dreyma um að ferðast. Heimsækja staðina sem við höfum heyrt nefnda og kannski velt fyrir okkur um stund hvernig gætu litið út, staðir sem hafa framandleg heiti eins og Ouagadougou eða Gondar: hvernig ætli sé að vera þar?

Halldór Friðrik Þorsteinsson lét ekki þessar hugsanir nægja, heldur hélt af stað. Í hálft ár ferðaðist hann frá vesturströnd Afríku austur á bóginn og síðan suður að syðsta odda álfunnar. Á leiðinni hitti hann fyrir fjölskrúðuga flóru fólks sem fæst við allt frá frönskukennslu til pálmavínbruggs, frá sölu fórnardýra til leigubílaaksturs. Hann heyrir af vonum og væntingum íbúa þessarar miklu álfu og stendur sjálfur á hæsta tindi hennar og skyggnist yfir.

Heiti bókarinnar, Rétt undir sólinni, er fengið úr frásögn Jóns Indíafara sem sigldi framhjá Afríku á leið sinni austur á bóginn fyrir 400 árum. Þótt þekkingu okkar á löndum heims hafi auðvitað stórfleygt fram frá því að Jón sagði Íslendingum frá furðum heimsins, minnir titillinn á að þrátt fyrir allt skiljum við heiminn best þegar við heyrum sögur sem taka mið af því lífi sem við lifum sjálf.

Tónn bókarinnar er geðþekkur, jarðbundinn og yfirlætislaus. Það er hvergi dregin fjöður yfir þau fjölmörgu vandamál sem steðja að íbúum Afríku en við erum líka minnt á að álfan er stór og menningarheimar hennar margir, og þeir eru forvitnilegir og heillandi.

Halldór Friðrik Þorsteinsson er menntaður í heimspeki og viðskiptum og starfaði við verðbréfamiðlun um árabil. Hann hefur á undanförnum árum ferðast vítt og breitt um heiminn, yfir Asíu og Afríku og Suður- og Mið-Ameríku. Rétt undir sólinni er fyrsta bók hans.