Ingunn er mikils metinn blaðamaður og sérfræðingur í tónlist af öllu tagi. Utan vinnu er hún sólgin í karlmenn og kynlíf en um leið hrædd við náin tengsl og svik. Þegar hún finnur að áhugi karlmannsins dalar flýtir hún sér að slíta sambandinu til að verða fyrri til. Einlægasta vináttusambandið á hún við bílinn sinn og hund nágrannans.
Anne B. Ragde er vinsæl víða um lönd fyrir Neshovþríleikinn og Arsenikturninn. Í Næturóskinni skrifar hún um rótlausa nútímakonu sem er alveg viss um að lífið sem hún lifir geti ekki orðið betra. En er það rétt?
Hjalti Rögnvaldsson þýddi.
****
„Stíll hennar … er stríður, flæðandi, fullur af sterkri skynjun fyrir stöðu konunnar og tilfinningalífi, kaldrifjaðri drottnunarþörf hennar sem víkur sér frá tilfinningalegu bandi í skjóli stöðugra kynlífsblossa. Karllæg krafa hennar um stöðugt nýja drætti er írónísk. Hún er þannig lengi vel á skjön við fórnarlambstón margra skvísubóka. … Sagan er því merkileg viðbót við kvennalitteratúr okkar daga …“
Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttatíminn
„Ragde er frábær stílisti og sögumaður … samtölin eru með því besta sem undirrituð hefur lesið langa lengi. Dásamleg kaldhæðnin og skerandi sársaukinn vega salt og skapa jöfnu sem nánast er ómótstæðileg. Textinn flæðir vel og vönduð þýðing Hjalta Rögnvaldssonar skilar hverju blæbrigði með sóma. Vel skrifuð og skemmtileg saga um eina skemmtilegustu kvenpersónu sem sést hefur á prenti langa lengi.“
Friðrika Benónýsdóttir / Fréttablaðið
„Næturóskin er grípandi saga um konu sem þarf að komast yfir tilfinningahömlur sínar og þora að lifa, elska og sakna.”
Jyllands-Posten
„…sterk saga, full af orku og húmor en líka viðkvæmni.”
Kjell-Olaf Jensen / Dagbladet
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun