Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Lof lyginnar er háðsádeila af þeirri gerð sem nefnd hefur verið trúðskaparmál, sniðin eftir bók Erasmusar Lofi heimskunnar, sem einnig er Lærdómsrit, og mun vera eina slíka verkið sem kunnugt er að hafi verið ritað á Norðurlöndum fyrr á öldum. Bókin þykir meðal annars merkileg fyrir þær sakir að þar gætir í fyrsta sinn eftir siðaskipti gagnrýnisanda gagnvart rétttrúnaði kirkjunnar í íslenskum bókmenntum.

Þorleifur Halldórsson hafði á sinni tíð mikið orð á sér fyrir gáfur og lærdóm, hann var studdur til mennta af Jóni Vídalín og umgekkst á námsárum sínum í Kaupmannahöfn nokkra mestu frammámenn í menningarlífi borgarinnar. Hann lést aðeins þrítugur að aldri árið 1713, þá tiltölulega nýorðinn rektor Hólaskóla, en Lof lyginnar skrifaði hann um tvítugt á siglingu sinni til háskólanáms í Kaupmannahöfn og þá á latínu.

Í verkinu stígur Lygin fram persónugerð og flytur sjálfri sér varnarræðu. Henni þykir þarft að benda mönnum á mikilvægi sitt og árétta að öll svið mannlífsins séu lituð af lygi og tilgerð allt frá því að lygi breytti hinum fyrsta manni í aldingarðinum Eden. Það að vera maður er því að vera lygari.

Höfundurinn þýddi bókina sjálfur yfir á móðurmálið og bætti við eftirmála þar sem hann varar við þeim misskilningi að ásetningur hans sé í raun að hvetja til lyga, enda áttu Íslendingar ekki að venjast bókmenntum af þessum toga. Hann brýnir fyrir fólki að þekkja málefni frá báðum hliðum og tilgangurinn að baki háðsádeilunni er ljóslega að örva menn til gagnrýninnar og upplýstrar hugsunar í stað þess að trúa valdhöfum í blindni. Slíkur boðskapur átti betri möguleika á að sleppa athugasemdalaust framhjá kirkjunnar mönnum og stjórnvöldum ef hann var í gamansömum búningi og það hefur sennilega átt þátt í því að Þorleifur valdi þetta form.

Ritgerðin vakti litla athygli framan af en virðist, sé miðað við fjölda eftirrita, hafa náð vinsældum víða um land á 19. öld. Auk þess að eiga merkan sess í íslenskri bókmenntasögu er hún rituð af snerpu og hugkvæmni og full af áhugaverðum skírskotunum til samtíma síns og mannlífsins yfirleitt.

Með bókinni fylgir fróðlegur inngangur Halldórs Hermannssonar um ævi Þorleifs, tíðarandann í upphafi 18. aldar og upphaf þeirrar bókmenntagreinar sem Lof lyginnar fellur undir.