Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundar: Þórður Tómasson, Helga Pálsdóttir á Grjótá

Helga Pálsdóttir skáldkona (1877-1973) var ævilangt vinnukona í sinni heimasveit, Fljótshlíðinni, ógift og barnlaus. Lengst af ævi var hún á bænum Grjótá og þjónaði þar sömu fjölskyldu kynslóðum saman. En vinnukonan á Grjótá var jafnframt sveitarskáld Fljótshlíðinga og orti þegar þess þurfti fyrir munn sveitunga og vina jafnt ljóðabréf og erfiljóð. Kveðskapur Helgu er hefðbundinn að formi og efni. Hér birtist hið gamla íslenska sveitasamfélag og menning þess frá sjónarhóli vinnukonunnar. Guðstrúin leikur þar stórt hlutverk, hinn alvaldi gæskuríki guð vakir yfir hverju barni.

Trúarefi er enginn í kveðskap Helgu heldur lifir hér hin bjargfasta vissa um endurfundi í öðru lífi. En Helga yrkir um fleira en trú. Hún hefur sjálf orðið fyrir vonbrigðum í ástamálum og lýsir þeim í fyrsta kvæði bókarinnar. Ættjarðarljóð og náttúrustemningar eru henni einnig tamar og fréttir úr sveitinni færir hún í bundið mál. Fyrir réttum 100 árum fá íslenskar konur kosningarétt og þá yrkir Helga braginn Konuvísur þar sem sagt er frá öllum húsfreyjum Fljótshlíðar.

Örlögin höguðu því svo til að tvær skáldkonur fyrri tíðar sátu á sama bæ, Grjótá. Fyrst Þórhildur sem var sögupersóna í Njálssögu en vísuhelmingur sem hún kastaði að bónda sínum, Þráni Sigfússyni kostaði hana hjónabandið og þar með húsfreyjustöðu. Vel má vera að sjálfstæði og skáldagáfa Helgu á Grjótá hafi einnig orðið til að hún hlaut að feta ein um lífsins veg. Á stundum yrkir hún angurvært um örlög sín sem hún sættir sig við vegna þess að bót þeirra meina bíða handan tjaldsins í öðru lífi. En Helga á það líka til að skopast að sjálfri sér.

Í formálsorðum gera þær Ásta Þorbjörnsdóttir bóndi á Grjótá og Harpa Rún Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur grein fyrir skáldinu og skáldskap þess. Þá er í bókarauka samantekt Þórðar Tómassonar um Ástu og þátt hennar í varðveislu íslenskrar verkmenningar og þjóðháttafræði.