Bókin Líf annarra eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur hefur verið endurútgefin en hún kom fyrst út 1938. Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur skrifar eftirmála.
Þórunn Elfa Magnúsdóttir (1910−1995) var afkastamikill skáldsagnahöfundur sem fór sínar eigin leiðir í skrifum og formgerð sagna. Hún ruddi þar braut síðari tíma skáldsystra. Þórunn sendi frá sér á þriðja tug bóka á árabilinu frá 1933 til 1985. Í skrifum hennar kemur fram hvöss samfélagsgagnrýni en í þeim efnum var hún langt á undan sinni samtíð.
Bókin Líf annarra fjallar um miskunnarlaus samskipti kvenna í litlu íslensku sjávarplássi, drauma þeirra og áleitna þanka mannskepnunnar um hlutskipti annars fólks. Líf annarra, sem kom út hjá Bókaverzluninni Mími árið 1938, er ekki síst athyglisverð fyrir nútímaleg sjónarmið hvað varðar samskipti kynjanna.
Í eftirmála fjallar Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur og heimspekingur um verk Þórunnar. Hún beinir þar athyglinni að knýjandi spurningum sem skáldkonan varpar fram og kallar eftir svörum við spurningum sem enn þann dag í dag eru brennandi í samfélagsumræðunni. Oddný líkir verkum Þórunnar við tifandi tímasprengjur sem vofa enn yfir okkur.
Skáldkonan Þórunn og sögupersónur hennar kljást við innstu rök mannlegra samskipta og fegurð mannlífsins, jafnvel þar sem ekki er talið að fegurðina sé að finna.