Ladies, Beautiful Ladies er framhald rannsókna Birgis Snæbjarnar Birgissonar á ímynd ljóskunnar í samfélagslegu og pólitísku samhengi. Í bókinni eru 299 olíumálverk úr myndröðinni Blonde Musicians, máluð á umslög vínilplatna þar sem ljóshærðar, fallegar konur frá sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum sitja fyrir.
Bókin fjallar um það hvernig ímyndir eru gerðar og mótaðar, dreifðar og endursagðar, en um leið undirstrikar bókin samfélagslega túlkun okkar á fegurð, notkun hennar og misnotkun. Verk Birgis takast á við hvað við teljum vera fegurð en gera það bæði með bjögun og ótrúlegum þokka. Verkin eru ekki til útskýringar á fyrirbærum eða áhrifum. Þau eru ekki heldur hylling á innbyggðri sérvisku okkar um fegurð og ljóskur.
Bókin Ladies, Beautiful Ladies er gefin út í tengslum við tvær sýningar Birgis Snæbjarnar Birgissonar. Önnur er í Listasafni ASÍ við Freyjugötu og hin er í Helsinki Contemporary galleríinu í Helsinki í Finnlandi.
Birgir Snæbjörn Birgisson er fæddur árið 1966 á Akureyri og nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og École des Arts Décoratifs í Strassborg í Frakklandi. Hann er í hópi virkustu íslensku listamanna samtímans og hefur fyrir löngu vakið almenningsathygli fyrir verk sem sem tengjast ímynd hins ljóshærða.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun