Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir er saga hjónanna Kristins E. Andréssonar og Þóru Vigfúsdóttur en um leið lýsing á viðhorfum og framlagi kommúnista til íslenskrar menningar og samfélags á tuttugustu öld. Kristinn var framkvæmdastjóri Máls og menningar og Heimskringlu og mikill áhrifamaður í pólitík og menningarlífi. Þóra var áhrifakona í kvennabaráttu og saman unnu þau hjónin ötullega að uppbyggingu kommúnismans á Íslandi og áttu í samstarfi við fólk úti um allt land og víða um heim.
Bókin fjallar þó ekki síður um einstakt samstarf og samheldni tveggja eldhuga sem lifðu fyrir hugsjónir sínar og létu þær stundum blinda sig. Þau trúðu á drauminn um framtíðarríkið og heimildir frá Moskvu staðfesta sterk og órjúfanleg tengsl þeirra við Ráðstjórnarríkin. Bókin er meðal annars byggð á bréfum og dagbókum sem varpa ljósi á skoðanir þeirra og líðan, vonir og vonbrigði – en umfram allt sýnir hún ást þeirra hvors á öðru og þræðina á milli þeirra, sem voru sterkari en allt annað svo að sambandið veitti þeim skjól fyrir árásum og gagnrýni utan frá.
Rósa Magnúsdóttir er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún er höfundur bóka og greina um áróður og hugmyndafræði Sovétríkjanna í kalda menningarstríðinu. Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir er fyrsta bók hennar sem kemur út á íslensku.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun