Einar Olgeirsson var einn umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu aldar á Íslandi. Hann var leiðtogi kommúnista og sósíalista, heillaði fjölmarga til liðs við málstað sinn með annálaðri mælsku og átti öðrum meiri þátt í að þeir urðu sterkari á Íslandi en í nágrannalöndunum. En hann var einnig vinur og samstarfsmaður Ólafs Thors, stjórnaði síldarvinnslu og verkamannafélagi á sama tíma og hafði þó ætlað að helga sig bókmenntum.
Í þessari bók fjallar Sólveig Einarsdóttir um föður sinn frá ýmsum hliðum, um hvernig pólitískt líf hans og einkalíf fléttaðist saman, hvernig skoðanir hans mótuðust og um fólkið sem stóð á bak við byltingarleiðtogann. Hún fjallar líka um það hvernig var að alast upp sem barn kommúnistaforingja í miðju köldu stríði. En ekki síst fjallar þessi bók um afl hugsjóna og hverju er til fórnandi fyrir þær.
Bókin er prýdd fjölmörgum ljósmyndum sem aldrei áður hafa komið fyrir almenningssjónir.