Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Georg Henrik von Wright

Finnski rökfræðingurinn Georg Henrik von Wright má heita merkastur norrænna heimspekinga 20. aldar. Hann lærði hjá Wittgenstein, sem leit á hann sem arftaka sinn, og vann að því að víkka út verksvið rökfræðinnar, meðal annars með rökfræðilegri greiningu siðaboða og athafna og háttarökfræði, sem hann var einn upphafsmannanna að. Á síðari hluta ferils síns runnu hins vegar upp fyrir honum takmarkanir rökgreiningarhefðarinnar í heimspeki og hann tók að fjalla um viðfangsefni sem heimspekingar innan þeirrar hefðar höfðu ekki talið sér beinlínis viðkomandi: ástand siðmenningarinnar og heimsmyndir nútímans.

Skrif von Wrights um þessi efni eru yfirleitt aðgengileg og ætluð almenningi ekki síður en heimspekingum, öfugt við hin tæknilegu verk hans um rökfræði, og svo er einnig um Framfaragoðsögnina. Ritið er nýlegt, gefið út 1993, áratug fyrir dauða höfundarins. Það hefur að geyma safn ritgerða sem gagnrýna þá ríkjandi hugmynd að vísindaleg þróun leiði til eiginlegra framfara og rekja hugmyndasögulegar rætur þessarar goðsagnar allt aftur til frelsunarhugmyndar kristindómsins. Skynsemistrú upplýsingarinnar fylgdi trú á að vísindalegar framfarir myndu bæta bæði lífsskilyrði og siðferði manna, en fólki varð smám saman ljóst af framgangi sögunnar að tækniafrekin mátti ekki síður nýta til ills. Því hörfaði skynsemistrúin, að mati von Wrights, og tækniframfarirnar urðu að markmiði í sjálfu sér. Slíkt gildismat telur hann brýnt að uppræta, enda séu ýmsir fylgifiskar tækniframþróunarinnar byrði á mönnum fremur en frelsandi afl. Hann hafnar því að þekkingarleit sé alltaf göfug í sjálfri sér og það sé einungis hagnýting þekkingarinnar sem geti brugðið á báða bóga, heldur sé hún iðulega samofin einhverju gildismati. Því þurfi að að skilja á milli grunnrannsókna í vísindum og hagnýtra rannsókna og taka gagnrýna afstöðu til vísindanna. Þessi afstaða von Wrights er samtvinnuð gagnrýni hans á óhefta markaðshyggju.

Von Wright taldi hlutverk heimspekinnar vera greiningu á því innsæi sem fólgið er í hugtökum okkar og ekki falla undir rökfræði. Hann segir eitt gagnlegasta hlutverk heimspekinga vera að greina hin raunverulegu markmið vísindaþróunar, enda sé þeim ekki stætt á ábyrgðarlausu skeytingarleysi um samfélagið. Sigríður Þorgeirsdóttir skýrir frá þessum hugmyndum von Wrights og fjallar ítarlega um kenningu hans um framfaragoðsögnina í fróðlegum inngangi sínum að verkinu.