Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Khaled Hosseini

Flugdrekahlauparinn er heillandi skáldsaga um vináttu og svik, ástir og örlög, sakleysi og sekt. Hún er allt í senn: pólitísk og persónuleg, grimm og hlý, harmræn og fyndin. Khaled Hosseini sýnir okkur mannlíf, menningu og sögusvið sem flest okkar þekkja ekki nema af afspurn.

Við lifum okkur inn í frásögn aðalpersónunnar og sögumannsins Amirs sem tekst á hendur för heim til Afganistan til að gera upp gamlar syndir. Ferðalagið gæti kostað hann lífið en Amir, sem segir sjálfur að hann sé hvorki göfugmenni né hetja, verður að bæta fyrir brot sem hann framdi þegar hann var strákur, brot sem hefur hundelt samvisku hans alla daga síðan.

Sagan um vinina Amir og Hassan bregður upp leiftrandi myndum af daglegu lífi í Afganistan frá áttunda áratugnum til dagsins í dag. Við kynnumst fólki af öllum stéttum, sorgum þess og gleði, draumum og þrám; fólki sem þrátt fyrir stríð, hörmungar og ótrúlega grimmd yfirvalda  á hverjum tíma hefur ekki gefið upp vonina um betra líf.

Khaled Hosseini fæddist í Kabúl í Afganistan 1965 og er elstur fimm systkina. Hann fluttist með fjölskyldu sinni til Parísar 1976 þar sem faðir hans starfaði í fjögur ár við afganska sendiráðið. Þegar kom að því að flytja aftur heim höfðu Rússar tekið völdin í Afganistan og þess vegna ákvað fjölskyldan að sækja um pólitískan griðastað í Bandaríkjunum. Leyfið var veitt og þangað flutti hún 1980. Hossini hefur búið þar síðan og er starfandi læknir í Kaliforníu. Hann er giftur og á tvö börn. Flugdrekahlauparinn er hans fyrsta skáldsaga og hún hefur hvarvetna fengið lofsamlega dóma.

Aðrar vörur frá þessari verslun

Aðrar vörur frá þessari verslun