Höfundur Ingibjörg Hjartardóttir
Ríkey var tíu ára þegar hún missti föður sinn í snjóflóði en hann var foringi bændanna í dalnum í baráttu þeirra gegn virkjun sem átti að reisa. Fimmtíu árum seinna á Ríkey fyrst afturkvæmt á æskustöðvarnar til þess að fylgja móður sinni til hinstu hvílu við hlið föðurins í kirkjugarði sveitarinnar.
Minningar bernskuáranna vakna af dvala og varpa um leið ljósi á ævintýralegt lífshlaup heimskonunnar Ríkeyjar í bókinni Fjallkonan eftir Ingibjörgu Hjartardóttur sem gefin er út af Sölku. Fjallkonan er fjórða skáldsaga Ingibjargar en áður hafa komið út hjá Sölku Hlustarinn og Þriðja bónin. Útgáfuréttur af Fjallkonunni hefur verið seldur til Þýskalands og kemur bókin út í þýskri þýðingu í upphafi árs 2016.
Ingibjörg hefur skrifað leikrit bæði fyrir atvinnu- og áhugaleikhús, útvarpsleikrit, smásögur og ljóð. Hún hefur þýtt sex skáldsögur. Árið 2001 kom út hjá Máli og Menningu fyrsta skáldsaga hennar, Upp til Sigurhæða og var sú bók einnig gefin út í Þýskalandi og fékk mjög góða dóma. Fjórum árum síðar, árið 2005, kom út hjá Sölku önnur skáldsagan hennar, Þriðja bónin.
Þriðja skáldsaga Ingibjargar, Hlustarinn, kom út snemma árs 2010 og fékk hún prýðilega dóma hérlendis sem og erlendis en allar bækur Ingibjargar hafa verið gefnar út í Þýskalandi af þýska forlaginu Salon Literatur Verlag og hafa fengið góðar viðtökur.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun