Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Höfundur Laozi

[removed]

Það ríkir mikil dulúð í kringum manninn Laozi. Samkvæmt kínverskri hefð er talið að Laozi hafi verið uppi á 6. öld f.Kr. og verið samtímamaður Konfíususar. Sumir fræðimenn vilja þó telja að Laozi sé þjóðsögn og hafi í raun aldrei verið til. Þrátt fyrir óvissu um höfund verksins hefur það engu að síður haft ómæld áhrif um aldir í hinum austræna og vestræna heimi.

Ferlið og dygðin er höfuðrit daoisma sem hefur verið hluti af menningarheimi og menningarvitund Kínverja í um tvö þúsund ár. Daoismi tekur á sig tvær ólíkar myndir, annars vegar sem trúarbrögð og hins vegar sem heimspeki og lífsviska. Í trúarlegum daoisma er Laozi vegsamaður sem æðstur goða. Áhrif verksins á kínverska menningu ná langt aftur í sögu hennar og hefur það meðal annars haft áhrif á kínverska heimspeki, bókmenntir, leturgerð, myndlist og tónlist. Daoismi er enn lifandi trú í Hong Kong, Tævan og Kína og hefur haft umtalsverð áhrif á sköpun kóreskrar og japanskrar menningar.

Á 18. öld barst verkið fyrst til Englands í latneskri þýðingu og hefur síðan verið gefið út margsinnis á þjóðtungum Evrópubúa. Kenningar daoisma fengu nýjan búning hjá vestrænum hugsuðum sem veltu fyrir sér sambandi manns og náttúru. Hugmyndir Hegels og Marx um breytingar í krafti togstreitu andstæðra afla bera einnig keim af daoisma. Þess má geta að Ferlið og dygðin er það verk bókmenntasögunnar sem oftast hefur verið þýtt á eftir Biblíunni. Bókin skiptist í tvo hluta, fyrri hlutinn fjallar um ferlið og hinn seinni fjallar um dygðina. Hver hluti samanstendur af stuttum þáttum sem fjalla um mannlega breytni, útdeila lífsspeki, stjórnspekilegum hollráðum og hvernig best megi haga sáttfúsum og heillyndum samskiptum manna. Kverið er margrætt og hafa ýmsar túlkanir á því litið dagsins ljós.

Laozi hefur lengi verið íslenskum lesendum kunnur. Fyrsta íslenska þýðingin á þessu höfuðriti hans kom út árið 1921 undir heitinu Bókin um veginn og hefur síðan alloft verið gefin út í öðrum þýðingum. Ragnar Baldursson hefur nú þýtt ritið beint úr frummálinu og hefur titli bókarinnar verið breytt til að endurspegla betur viðfang frumtextans. Þessi nýja útgáfa sker sig frá þeim fyrri að því leyti að kínverski frumtextinn er hafður samfara íslenska textanum ásamt ítarlegum ritskýringum. Útgáfan mun því gagnast nemendum og áhugamönnum kínverskra fræða og tungumáls einkar vel. Ragnar skrifar einnig fróðlegan inngang að ritinu þar sem helstu hugtök eru skýrð fyrir lesandanum ásamt því að varpa ljósi á bakgrunn og umfangsmikil áhrif textans

3.620 kr.
Afhending