„Drottinn blessi þig og varðveiti þig …“
Blessunarorðin eru orðin sem ljúka hverri messu, þetta eru orðin sem flutt eru yfir ungbarninu við skírnarlaugina, yfir brúðhjónunum við altarið, og orðin hinstu yfir þeim látna. Eins hafa þau verið hluti daglegrar bænagjörðar kynslóðanna á heimilum, við rúm barnsins eða í einrúmi fyrir svefninn eða í byrjun dags.
Blessunarorðin eru máttarorð, lifandi, lífgandi, sköpunarorð. Eitthvað nýtt verður til, varðveisla, náð, friður, blessun. Í hversdeginum enduróma blessunarorðin í íslensku kveðjunni: „Sæll og blessaður,“ „sæl og blessuð!“ – eða stytt í: „Sæl!“, „Bless!“ Hún er í eðli sínu bæn um blessun Guðs sem blessar, Guðs sem gefur allt hið góða og meir en við kunnum að biðja um.
Blessun táknar velvild og umhyggju hins æðsta máttar, eins og móður sem lítur á barn sitt og auglit þess ljómar af hlýju og gleði. Að blessa aðra manneskju eða óska henni sælu, er gjöf, að taka við slíkri kveðju er að þiggja dýrmæta gjöf.
Þetta kver geymir blessunarorð inn í líf og daga sem eru eins og útlegging hinna fornu blessunarorða. Þau eru ættuð héðan og þaðan, flest úr sjóðum sem geyma keltneskar bænir. Annað hef ég samið upp úr ritningarversum og blessunum hinnar helgu bókar. Öll erum við, kristnir menn, konur, karlar, börn, skírð, frátekin, send til að blessa aðra, vera öðrum blessun. Blessun Guðs er okkur gefin til að gefa öðrum.
Aðrar vörur frá þessari verslun
Aðrar vörur frá þessari verslun