Artemis Fowl er bráðsnjall, eins konar sambland af James Bond og Harry Potter. En hann er glæpamaður. Og hann er tólf ára.
Þrátt fyrir ungan aldur er Artemis slóttugur og til í hvað sem er. Hann er nýbúinn að komast að því að álfar eru til og með hjálp Butlers aðstoðarmanns síns rænir hann Holly Short til að komast yfir gullsjóð álfanna. Þar hefur hann ef til vill færst of mikið í fang því að Holly er varðstjóri í BÚÁLF-lögreglusveitunum og ekki sátt við að láta ræna sér. Og álfarnir eiga alls konar vopn og græjur og eru sannarlega engin lömb að leika sér við. Dvergar, tröll og ýmsar aðrar kynjaverur koma einnig við sögu…
Írski rithöfundurinn Eoin Colfer er víðkunnur fyrir bókaflokk sinn um Artemis Fowl, sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga og notið gífurlegra vinsælda meðal barna og fullorðinna. Lengi hefur verið beðið eftir kvikmynd byggðri á sögunum og nú er hún orðin að veruleika.
Guðni Kolbeinsson þýddi.
ATH. Hljóðbókin er afhent rafrænt og hægt er að hlusta á hana beint í gegnum app Forlagsins eða vafra. Hér má lesa meira um hljóðbækur fyrir appið.
Hljóðbókin er 8 klukkustundir og 22 mínútur að lengd. Sigurbjartur Sturla Atlason les.