Heimilisfang
Velja afhendingarmáta
Höfundur: Lisa Wingate

Í þessari áhrifamiklu skáldsögu verður átakanlegt óréttlæti til þess að líf tveggja fjölskyldna breytist til frambúðar. Ógleymanleg saga um fjölskyldur, systur og leyndarmál. Byggð á sönnum atburðum.

Memphis, 1939. — Hin tólf ára gamla Rill Foss og fjögur yngri systkini hennar lifa ævintýralegu lífi um borð í húsbáti foreldra sinna á Mississippi-ánni. En þegar faðir þeirra fer í flýti með móður þeirra á sjúkrahús eitt óveðurskvöld, þarf Rill að vera eftir og passa systkini sín — allt þar til ógnvekjandi menn mæta á staðinn. Börnunum er kippt burt frá öllu sem þau þekkja, komið fyrir á barnavistheimili og talin trú um að þau muni bráðum hitta foreldra sína á ný. En fljótlega átta þau sig á bitrum sannleikanum.

Aiken, Suður-Karólínu, nútíminn. — Avery Stafford er fædd inn í volduga og ríka fjölskyldu og virðist hafa allt sem hugurinn girnist; farsælan frama sem saksóknari, myndarlegan unnusta og væntanlegt brúðkaup. En þegar Avery snýr aftur heim til að hjálpa föður sínum að ná betri heilsu, verður óvæntur fundur til þess að hún situr eftir með óþægilegar spurningar og finnur sig knúna til að skoða fjölskyldusögu sína betur.

Bókin er byggð á einu stærsta hneykslismáli sem upp hefur komið í Bandaríkjunum, þar sem forstöðukona ættleiðingarstofnunar rændi börnum frá fátækum foreldrum og seldi þau til ættleiðingar til ríkra fjölskyldna víðs vegar um Bandaríkin.

Frásögn Lisu Wingate er spennandi, átakanleg en að lokum upplífgandi og hún minnir okkur á, að jafnvel þótt leiðir okkar liggi til margra ólíkra staða, gleymir hjartað aldrei hvaðan það kom.