Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Rómverski sagnaritarinn Tacitus var uppi á fyrstu og annarri öld eftir Krist og eru bækur hans ein merkasta heimildin um ýmsa atburði þess tímabils. Hann mun hafa átt glæstan embættisferil, þótt aðallega væri hann virtur sem ræðuskörungur og fræðimaður, en annars er sáralítið vitað um ævi hans. Verk Tacitusar falla varla undir sagnfræði í skilningi nútímamanna fremur en rit annarra sagnfræðinga fornaldar; hann tekur sér iðulega skáldaleyfi, leitar söguskýringa nær alfarið í athöfnum einstaklinga og leggur siðferðilegt mat á menn, einkum keisara Rómaveldis, en líka heilar þjóðir. Tvö rita hans lýsa útlendum ættbálkum og löndum þeirra: Germanía, sem einnig hefur komið út sem Lærdómsrit, og Agricola.

Verkið er að nafninu til ævisaga Júlíusar Agricola, tengdaföður Tacitusar og herforingja í stríðsrekstri Rómverja á Bretlandseyjum. Veigamest er þó í raun frásögnin af hernáminu og lýsing á staðháttum og íbúum Bretlands á fyrstu öld, sem verkið er ein ítarlegasta heimildin um, en undirtónn þess er gagnrýni á ofríki keisarans Dómitíanusar. Gegn grimmd og undirferli keisarans teflir höfundur eins konar helgimynd af Agricola sem varpar þó í raun takmörkuðu ljósi á hina sögulegu persónu, enda var tilgangur Tacitusar eins og fyrr segir öðrum þræði siðferðilegur. Alls staðar má lesa á milli línanna samanburð á dyggðum og kjarki villimannanna og hinum löstum spilltu Rómverjum sem lutu vondri stjórn. Þá ber Agricola sterk merki stílbragða mælskulistar Rómverja. Ritið er því vandskilgreint en auðsæ er aftur á móti ritsnilld höfundarins, sem gerir fræði sín að listgrein sem hrifið hefur menn á öllum tímum. Stíll hans er einkennandi fyrir svokallaða silfuröld í rómverskum bókmenntum, þótt hann sé að vísu undir nokkrum áhrifum frá Cicero. Orðfærið er agað, stíllinn naumur og hljóman orðanna mikilvæg, jafnvel svo að minnir stundum á spakmæli.

Þessu sígilda verki rómverskra fræðibókmennta fylgir í þessari útgáfu fróðlegur inngangur þar sem samskiptum breskra Kelta við heimsveldið eru gerð greinargóð skil og rit Tacitusar kynnt og skýrt.