Heimilisfang
Velja afhendingarmáta

Höfundur Jan Kott

[removed]

Jan Kott var ekki aðeins leikhúsrýnir og fræðimaður, hann var sannkallaður heimspekingur leiklistarinnar. Hann var frægasti og mest lesni gagnrýnandi Pólverja en það var einmitt byltingarkennd bók hans um Shakespeare sem skaut honum upp á stjörnuhimininn. Bókin kom fyrst út í Varsjá árið 1964 og nú birtist úrval úr henni sem Lærdómsrit í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Kott setti fram þá hugmynd að leikstjórar ættu að gera Shakespeare að samtímamanni sínum og ljá verkum hans sterkan enduróm í tíðarandanum hverju sinni. Kott hafði sjálfur lifað tímana tvenna sem gyðingur í Póllandi undir stjórn nazista. Hann barðist til að mynda í pólska hernum gegn innrás Þjóðverja. Í leikritum Shakespeares fann hann magnaðar hliðstæður og lýsingar á alræðisríkjum síns tíma.

Shakespeare á meðal vor hefur að geyma nokkrar áhrifa mestu ritgerðir Kotts. Hér kemur fram hinn sterki sjálfsævisögulegi stíll sem hann varð svo frægur fyrir. Söguleg leikrit Shakespeares, til dæmis Hamlet, Óþelló og Lér konungur, eru rannsökuð og sundurgreind af ótrúlegum krafti og óþvingaðri sköpunargleði. Kott vílaði ekki fyrir sér að sjóða saman ólík stef í verkum Shakespeares og annarra höfunda á borð við Samuel Beckett eða Eugène Ionesco. Ein ritgerðin í Shakespeare á meðal vor snýst til dæmis um meistaralegan samanburð á Endatafli Becketts og Lé konungi. Þar tekst Kott að tengja Lé konung við ótal stef í nútímaleikhúsi til að sýna að leikritið á fullt erindi við okkar tíma. Margir telja að Kott hafi umbylt hugmyndum fólks um möguleika leikhússins og gert okkur kleift að endurtúlka sígild verk svo þau öðlist nýja rödd sem talar til okkar milliliðalaust. Kott skrifaði eitt sinn að leikhús væri ekki mynd af heiminum, heldur að heimurinn væri mynd af leikhúsinu. Hann vildi færa leikhúsið nær raunveruleikanum og blása í það nýju lífi.

Þetta stórmerkilega rit birtist í þýðingu eins ástsælasta og mikilvirkasta þýðanda þjóðarinnar. Helgi Hálfdanarson hefur áður þýtt öll leikrit Shakespeares og þessi þýðing ber það með sér að hér er að verki maður sem er gjörkunnur heimi leikskáldsins. Guðni Elísson ritar fróðlegan og greinargóðan inngang að verkinu.